Stjórn WOW air auk Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda félagsins eru krafin um milljarðabætur af hópi skuldabréfaeigenda sem tóku þátt í skuldabréfaútboði félagsins í september árið 2018. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins en heimildir blaðsins herma að umræddir stjórnarmenn séu Liv Bergþórsdóttir, stjórnarformaður auk stjórnarmannanna Helgu Hlínar Hákonardóttur og Davíðs Mássonar.

Samkvæmt fréttinni hefur stjórn félagsins auk Skúla verið sent kröfubréf þar sem farið er fram á að þau bæti það tjón sem skuldabréfabréfaeigendur urðu fyrir við gjaldþrot WOW air í lok mars á síðasta ári en við gjaldþrotið urðu umrædd skuldabréf verðlaus. Krefst hópurinn þess að stjórnendur gangi til samninga um greiðslu bóta en áskilur sér að öðrum kosti rétt til þess að sækja rétt sinn fyrir dómstólum.

Krafa skuldabréfaeigendanna byggir á þeirri skoðun að upplýsingagjöf í tengslum við útboðið hafi gefið villandi upplýsingar um raunverulega stöðu félagsins og einnig um ráðstöfun á þeim fjármunum sem söfnuðust í útboðinu.

Þá segir jafnframt í fréttinni að stjórn WOW air hafi verið með stjórnendatryggingu frá áhættustýringarfyrirtækinu Willis Towers Watson, sem tekin hafi verið til að mæta mögulegum kröfum vegna tjóns sem  hún kynni að valda með störfum sínum. Ekki hefur komið fram hve hárri fjárhæð stjórnin var tryggð fyrir en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er sú fjárægð mun lægri en nemur fjárhæð skuldabréfaútboðsins.