Upplýsingamiðlunarfyrirtækið Já, sem m.a. gefur út Símaskrána, komst í fréttirnar fyrir skemmstu þegar Póst- og fjarskiptastofnunin úrskurðaði að fyrirtækinu bæri að veita hverjum þeim sem vildi aðgang að gagnagrunni sínum á kostnaðarverði. Sigríður Margrét Oddsdóttir er forstjóri Já.

Sigríður Margrét er fædd á því herrans ári 1976. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1995 og ári síðar flutti hún norður yfir heiðar í höfuðstað Norðurlands þar sem hún hóf nám í rekstrarfræðum við Háskólann á Akureyri. B.Sc.-gráðu lauk hún árið 1999 og hóf þá störf hjá IMG, sem nú heitir Capacent. Hjá IMG starfaði hún sem ráðgjafi og viðskiptastjóri á skrifstofu fyrirtækisins á Akureyri til ársins 2002 þegar hún var ráðin svæðisstjóri IMG fyrir norðan.

Þremur árum síðar, sem sagt árið 2005, flutti Sigríður Margrét sig svo aftur úr Hólabiskupsdæmi. Það ár stofnaði Síminn upplýsingamiðlunarfyrirtækið Já, sem bæði hélt utan um útgáfu Símaskrárinnar og rekstur 118, þjónustunúmersins fyrir upplýsingar úr símaskránni. Sigríður Margrét var ráðin framkvæmdastjóri Já við stofnun fyrirtækisins og hefur hún sem sé stýrt því síðan.

Sjónvarpsstjóri

Árið 2007 jókst vegur hennar innan Símans, eða Skipta eins og eignarhaldsfélag Símans hét orðið þá. Þá var fjölmiðlunar- og upplýsingamiðlunarstarfsemi samstæðunnar (Já og Skjárinn) sameinuð í eitt fyrirtæki, Skjá miðla. Sigríður Margrét var ráðin framkvæmdastjóri hins nýstofnaða félags og varð hún því sjónvarpsstjóri Skjás eins.

Því starfi gegndi hún þar til í nóvember 2010 þegar félag í meirihlutaeigu Auðar I fagfjárfestasjóðs keypti Já út úr Skiptum. Sigríður Margrét var þá gerð að forstjóra félagsins. Sigríður Margrét hefur verið virk í félagsstarfi viðskiptalífsins undanfarin ár og á hún sæti í bæði stjórnum Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Þá er hún í félagasamtökunum Leiðtoga- Auði og Exedra sem er netverk kvenna í viðskiptalífinu. Áður en hún flutti til Reykjavíkur sat Sigríður Margrét í stjórn Góðvina Háskólans á Akureyri og Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.