Fyrrverandi millistjórnandi UBS bankans, Mitchel Guttenberg, hefur verið dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi í Bandaríkjunum, fyrir að taka þátt í því sem saksóknari kallar „verstu innherjasvik síðan á áttunda áratugnum“.

Frá þessu er greint í frétt Reuters.

Guttenberg játaði sekt sína í réttarhöldunum, en hann stundaði það að selja innherjaupplýsingar félaga sem UBS veitti fjárfestingarráðgjöf um.

Dómarinn sagði við sakfellinguna að Guttenberg hefði allt frá því hann komst fyrst í stöðu til þess ætlað að nýta sér upplýsingar sem hann komst yfir í starfi sínu á ólögmætan hátt.

Upplýsingar sem Guttenberg seldi voru notaðar til ákvarðanatöku um hlutabréfakaup fyrir meira en 17,5 milljónir Bandaríkjadala.