Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagt til breytingu á fjárlögum ríkisstjórnarinnar sem nemur rétt rúmlega 16 milljarða hækkun. Þá er einnig lagt til að 17 milljarðar verði sóttir í ríkissjóð gegnum orkuskatt.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar.

Tillögurnar gera ráð fyrir auknu fjármagni til Landsspítalans sem nemur rúmlega 2,8 milljörðum króna, og að elli- og örorkulífeyrir hækki afturvirkt.

Þá vilja flokkarnir einnig auka útgjöld til framhalds- og háskóla um 800 milljónir, og útgjöld til viðhalds vega um 700 milljónir. Til barnabóta ættu svo að renna 2,4 milljarðar, og til loftslagssjóðs, útlendingamála og aðgerða gegn kynbundins ofbeldis færu 200 milljónir hvort.

Til tekna telja stjórnarandstöðuflokkarnir að leggja eigi á aukinn orkuskatt og hafa betra eftirlit með greiðslu skatta, sem ætti að skila ríkiskassanum 6 milljarða króna. Arður af bönkum í eigu ríkisins mun þá nema 8 milljörðum og tillögur að hækkun veiðigjalda 3 milljörðum.