Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs segir niðurstöðu könnunarinnar sem Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun vera ákall um breytingar, um stefnubreytingu, breytta forystu og breytt stjórnmál eins og hún orðar það í Morgunblaðinu.

„20,2% er bara mjög góður árangur ef það er það sem kemur upp úr kössunum á kjördag,“ segir Katrín. „Verði niðurstaða kosninganna þessi er það ákall um að stjórnarandstaðan myndi ríkisstjórn. Það eru í raun og veru mestu tíðindin að ríkisstjórnin er fallin og stjórnarandstaðan er komin með meirihluta.“

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun tekur Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í sama streng og segir raunverulega hættu á að hér verði mynduð vinstristjórn.

Þegar niðurstöður könnunarinnar eru skoðaðar sést að hægt væri að mynda fjögurra flokka stjórn annað hvort til vinstri eða hægri, en vinstriflokkarnir gætu valið milli þess að starfa með Framsókn, Viðreisn eða Miðflokknum meðan allir þessir flokkar þyrftu að starfa með Sjálfstæðisflokknum til að ná tæpri stjórn til hægri.