Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í dag að stjórnarandstöðunni beri siðferðisleg skylda til að reyna að mynda ríkisstjórn ef hún fær nægilegt fylgi til þess í næstu kosningum. Mbl.is greinir frá.

Árni sagði m.a. að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu undanfarin ár unnið saman að stórum málum og náð saman um þau. Þar nefndi hann sem dæmi stjórnarskrármálið, afstöðu til makrílkvóta o.fl. Því bæri flokkunum siðferðisleg skylda að reyna ríkisstjórnarmyndun eftir næstu kosningar verði fylgið nægilegt.

Árni Páll sagði að ekki væri hægt að ræða um sameiningu við aðra flokka á borð við Bjarta framtíð og Vinstri græna nema það yrði ákveðið af flokknum í heild sinni. Hann sagði að Samfylkingin hefði upplifað það í síðustu kosningum að margir vinir þeirra hefðu skipt yfir í Bjarta framtíð. Hann segist ekki sjá tilganginn í því þar sem hann sér engan mun á flokkunum tveimur.