„Við höfum lengi kallað eftir því að ríkisstjórnin beiti skattkerfinu til tekjujöfnunar, en það hefur hún ekki gert síðan hún tók við. Við höfum talið mikilvægt að hafa fjölþrepaskattkerfi í þeim tilgangi og verkalýðshreyfingin hefur deilt þeim meginsjónarmiðum með okkur,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Fréttablaðið.

Þar er greint frá því að forystumenn stjórnarandstöðunnar hafi ekki fengið kynningu á tillögum ríkisstjórnarinnar um að fækka skattþrepum um eitt, en þeir vari við því að með því minnki færi á að nýta skattkerfið til tekjujöfnunar.

Birgitta Jónsdóttir hjá Pírötum segir ánægjulegt að komnar séu tillögur að því hvernig ríkið geti tekið sinn þátt í því að leysa kjaradeilur. „Ég átta mig ekki alveg á því hvort þetta sé nóg til að fólki finnist að það mikla gap sem er á milli þeirra sem hafa minnst og þeirra sem hafa mest verði brúað. Við verðum að sjá hvernig þetta kemur til með að líta út,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, fagnar einnig innkomu ríkisstjórnarinnar í málið. „Það eru hins vegar ákveðin rök fyrir þremur skatt- þrepum, ákveðin tekjujöfnunarrök, og ég þarf að sjá hvernig því er mætt, að þetta bitni ekki á þeim lægst launuðu. Útfærslan skiptir því máli og í samhengi við kjarasamninga, hvort því verði þá mætt þar,“ segir hann.

Þá segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að sér finnist kolröng stefna að fækka skattþrepunum. Tilgangurinn með því sé að fletja skattkerfið út aftur, enda hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið á móti þrepaskipta kerfinu þegar því var komið á og hafi viljað leita aftur í flata fyrirhrunskerfið.