Stjórnarandstöðuflokkarnir sækja í sig veðrið á kostnað Framsóknarflokksins, ef marka má niðurstöður nýrrar könnunar MMR. Sjálfstæðisflokkurinn heldur fylgi sínu.

26,5% myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði nú, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar MMR. Könnunin var gerð dagana 10. til 15. október. Fylgi Samfylkingarinnar jókst nokkuð og mældist nú 17,3%. Fylgi Framsóknarflokksins mældist 15,4%. Vinstri græn mældist nú með 12,6% fylgi og Björt framtíð mældist með 12,2% fylgi. Pírataflokkurinn mældist með 7,7% fylgi.

Niðurstöður þingkosninganna sem fram fóru í vor voru þannig að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 26,7% atkvæða, Framsóknarflokkurinn 24,4%, Samfylkingin 12,9%, VG 10,9% og Björt framtíð 8,2%. Þá fengu Píratar 5,1%.

Könnun MMR var gerð með spurningarvagni MMR. 937 einstaklingar, 18 ára og eldri úr hópi álitsgjafa svöruðu spurningunni.