„Forgangsröðun á eyðslu peninga kemur oft of snemma, við þurfum fyrst að pæla í hvernig við öflum teknanna og þetta heyrist mér vera liður í því sem er jákvætt,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, í samtali við Fréttablaðið .

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vill stofna sérstakan Orkuauðlindasjóð fyrir arðgreiðslur Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja í ríkiseigu, en þetta kom fram í máli hans á ársfundi Landsvirkjunar sem fram fór í gær. Sjóðnum yrði ætlað að vera stöðugleikasjóður, eins konar varasjóður ríkisins, til þess að jafna út efnahagssveiflur.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að sjóður sem þessi hafi lengi verið stefnumál flokksins. Þá segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að hún sé tilbúin til samstarfs enda hafi hugmyndin verið rædd í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, tekur í sama streng og segir að helsta gagnrýni á ríkisstjórnina sé að ekki hafi verið lagðar á borð skynsamlegar áætlanir um hvernig fjárfesta eigi skipulega í innviðum samfélagsins.