Þingflokkar stjórnarflokkanna munu á sameiginlegum fundi í dag fjalla um tillögur Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra um breytingar á fiskveiðistjórnun. Leigutími á kvóta er sagður verða 20 ár en komið til móts við útgerðarmenn, sem vilja mun lengri leigutíma, með því að setja inn skýr ákvæði um endurnýjunarrétt.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Heimildarmenn blaðsins fullyrða að þessi breyting frá tillögum Jóns Bjanrasonar í fyrra ætti að duga til að stórútgerðir þurfi ekki að óttast að kvótinn verði tekinn af þeim. Þá mun ákvæði í frumvarpi Jóns, um skorður við samþjöppun og krosseignatengsl, detta út.

Heimildarmenn segja líklegt að Steingrímur leggi frumvarp um málið fyrir ríkisstjórnina á föstudag.