Öldugangurinn undanfarið í kringum Bankasýslu ríkisins ætti ekki að hafa farið framhjá neinum. Ráðning Páls Magnússonar í starf forstjóra vakti hörð viðbrögð í samfélaginu og á endanum hætti hann við að taka við starfinu auk þess sem stjórn stofnunarinnar sagði af sér. Nú hefur Guðrún Ragnarsdóttir verið skipuð formaður nýrrar stjórnar Bankasýslunnar og fellur það henni í skaut að lægja öldurnar og finna stofnuninni nýjan forstjóra.

Guðrún, sem verður 45 ára á sunnudaginn, hefur komið víða við á ferli sínum í bókstaflegri merkingu. Hún er menntuð í Kanada og Hollandi og hefur m.a. starfað við bókaútgáfu, í fjármálageiranum, verslunargeiranum og sem ráðgjafi. Lítum aðeins nánar á feril hennar.

Árið 1991 lauk hún Bachelor of Commerce-háskólagráðu við Carleton University í Kanada en í námi sínu lagði Guðrún áherslu á markaðsmál, upplýsingatækni og fjármál. Hún hélt síðan heim á leið og starfaði sem fjármálastjóri Iðunnar bókaútgáfu og Eymundsson um skeið uns hún fór aftur utan til frekara náms. Nú lá leiðin til Hollands þar sem hún lauk MBAgráðu frá Nijenrode University. Að því námi loknu hóf Guðrún störf sem sölufulltrúi hjá Eimskipum en árið 1995 flutti hún sig til Landsvirkjunar og varð þar gæðastjóri.

Fjórum árum síðar lá leiðin til Íslandsbanka en þar stýrði Guðrún starfsþróunar- og gæðamálum bæði fyrir og eftir sameiningu bankans og FBA. Árið 2001 varð hún staðgengill framkvæmdastjóra þróunarsviðs bankans og tveimur árum síðar varð hún verkefnisstjóri á fjármálasviði Íslandsbanka þar sem hún stýrði innleiðingu á Basel II-regluverkinu hjá bankanum. Að því loknu fór Guðrún til BYKO þar sem hún starfaði fyrst sem rekstrarstjóri og síðan framkvæmdastjóri þróunarsviðs.Árið 2008 varð hún framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Strategíu og ári síðar tók hún við núverandi starfi sínu sem framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Auk þess hefur Guðrún átt sæti í ýmsum stjórnum og má þar nefna að hún var varaformaður bankastjórnar NBI (Landsbankans) árið 2010 auk þess sem hún hefur átt sæti í stjórn Horns fjárfestingarfélags, LeiðtogaAuðar, Landsnets og Íslensku óperunnar.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.