Marcus Agius, stjórnarformaður breska bankans Barclays, sagði af sér í dag. Breska fjármálaeftirlitið sektaði bankann um 290 milljónir punda, í kringum 50 milljarða íslenskra króna, vegna misnotkunar á markaði með millibankavexti. Agius hefur vermt stól stjórnarformanns bankans síðastliðin fimm og hálft ár. Hann er sá fyrsti sem tekur ábyrgðina á herðar sér vegna málsins. Bankastjórinn Bob Diamond sagðist í síðustu viku ekki ætla að gera það.

Nokkuð er um liðið síðan fjármálayfirvöld í Bretlandi hófu að rannsaka það sem þau töldu brot á markaði með millibankavexti. Reuters-fréttastofan greindi frá því í dag, að fleiri bankar hafi verið undir smásjá eftirlitsins og megi búast við að fleiri stjórnendur allt upp undir 12 annarra banka geti átt von á því að fá skömm í hattinn vegna svipaðra mála.