*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 28. október 2014 07:42

Stjórnarformaður FME hagnaðist á Skeljungssölu

Halla Sigrún Hjartardóttir, stjórnarformaður FME, fékk um 830 milljónir króna við sölu á Skeljungi og P/F Magn árið 2013.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Halla Sigrún Hjartardóttir, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins (FME), fékk um 830 milljónir króna í sinn hlut við sölu á Skeljungi og færeyska olíufélaginu P/F Magn í lok árs 2013. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Þar kemur fram að félag í hennar eigu hafi farið með 22% eignarhlut í Heddu eignarhaldsfélagi. Það félag átti svo 66% hlut í P/F Magn og 25% hlut í Skeljungi. Samtals nam hagnaður félagsins af sölunni 3,8 milljörðum króna árið 2013. Halla eignaðist hlut í Heddu þegar hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson seldu 66% hlut í félaginu.

Halla Sigrún varð stjórnarformaður FME í desember 2013. Í Morgunblaðinu kemur fram að ekki hafi náðst í Höllu við vinnslu fréttarinnar en hún hafi neitað að hafa átt hlut í Skeljungi eða tengdum félögum.