Milljarðamæringurinn Eric Schmidt, stjórnarformaður Google, leitar þessa dagana að húsnæði í London fyrir um 30 milljónir punda, jafnvirðði um 5,6 milljarða króna. Við kaupin myndi Schmidt greiða hærri skatta í Bretlandi en Google hefur greitt í landinu  að jafnaði á undanförnum árum.

Financial Times greinir frá fasteignaleit stjórnarformannsins. Fyrir um tveimur mánuðum var mikill pólitískur þrýstingur á Google vegna skattgreiðslna fyrirtækisins í Bretlandi. Frá 2006 til 2011 námu tekjur Google í Bretlandi um 12 milljörðum punda en skattgreiðslur félagsins námu aðeins um 10,6 milljónum punda. Ed Milibrand, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði Google teygja sig langt til þess að komast hjá skattgreiðslum.

Frá upphafi fjármálakrísunnar hafa dýrustu fasteignir í London hækkað mikið í verði, einkum vegna mikillar eftirspurnar frá erlendum auðmönnum. Á síðasta ári hækkuðu bresk stjórnvöld stimpilgjöld á fasteignir yfir 2 milljónum punda í 7%. Hús sem kostar 30 milljónir punda ber því um 2,1 milljóna stimpilgjöld.