Laun og önnur hlunnindi Eric Schmidt, stjórnarformanns Google, námu í fyrra 109 milljónum dala, andvirði um 14,8 milljarða íslenskra króna. Stærstur hluti þessa eru hlutabréf að markaðsvirði um 100 milljónir dala sem hann fékk á árinu. Laun Schmidt námu 1,25 milljón dala, hlunnindi um einni milljón dala og þá fékk hann bónusgreiðslu upp á sex milljónir dala. Árið 2013 voru laun og aðrar greiðslur til Schmidt metnar á 19,3 milljónir dala.

Schmidt hefur ekki fengið stærri hlutabréfapakka frá fyrirtækinu frá árinu 2011, þegar Larry Page tók við af honum sem forstjóri fyrirtækisins, en þá fékk hann hlutabréf sem voru þá metin á 94 milljónir dala. Í fyrra lækkaði gengi hlutabréfa Google um 5% og hafa hluthafar lýst yfir áhyggjum sínum af því að fyrirtækið kunni að vera að verja of miklu fé í verkefni sem ekki tengist kjarnastarfsemi þess. Til samanburðar hækkaði Standard & Poor's 500 hlutabréfavísitalan um 11% í fyrra.

Stofnendur Google, þeir Larry Page og Sergey Brin, fengu hvor um sig einn dal í laun í fyrra, eins og þeir hafa gert um árabil.