Eric Schmidt, starfandi stjórnarformaður Google og einn ríkasti maður heims samkvæmt lista Forbes, ætlar að selja 42% af hlutabréfaeign sinni í Google á næsta árinu. Markaðsvirði hlutabréfanna sem Schmidt ætlar að selja er í dag um 2,5 milljarðar dollara virði. Í krónum talið nemur upphæðin um 320 milljörðum.

Fréttir um fyrirhugaða sölu stjórnarformannsins birtast á sama tíma og hlutabréfaverð Google hefur aldrei verið hærra. Í gær var virði hvers hlutabréfs rúmlega 785 dollarar. Hækkun síðustu tólf mánaða nemur um 30%, samkvæmt frétt Financial Times um málið.

Google segir að þrátt fyrir söluna sé Schmidt enn að fullu trúr félaginu. Hann hefur verið starfandi stjórnarformaður Google síðan 2001. Hlutabréfaeign hans í tæknirisanum mun eftir söluna nema um 3,5 milljörðun dollara að markaðsvirði.