*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 7. maí 2013 08:59

Stjórnarformaður KEA gagnrýnir Bankasýsluna og FME

Hannes Karlsson, stjórnarformaður KEA, segir Bankasýsluna hafa brugðist hlutverki sínu.

Ritstjórn
Hörður Kristjánsson

Afar mikilvægt er að stjórnvöld dragi úr opinberri skattlagningu á sparisjóðina svo þeir geti áfram vaxið og dafnað, að sögn Hannesar Karlssonar, stjórnarformanns KEA. Á aðalfundi félagsins sagði hann að sparisjóðirnir væru eina verkfærið sem til væri til að veita stóru bönkunum aðhald og eðlilega samkeppni. Sagt er frá þessu í Vikudegi.

Samvinnufélagið KEA á tæpan helming stofnfjár í Sparisjóði Höfðhverfinga. Hannes sagði að ekki hefði tekist að koma þessum sjónarmiðum að hjá stjórnvöldum, það ætti vonandi eftir að breytast.

„Í lögum um fjármálafyrirtæki segir að þau skuli annaðhvort vera hlutafélög eða sparisjóðir. Það er ekki heimilt að reka fjármálafyrirtæki á Íslandi sem samvinnufélag og enginn hefur sett fram viðhlítandi skýringar á því.“

Þá sagði hann að FME gengi svo langt að heimila KEA ekki að eignast meira en helmingshlut í fjármálafyrirtæki nema því fylgi að kröfur sem gerðar séu til stjórna í fjármálafyrirtækjum flytjist yfir á stjórn KEA. „Hlutverk Bankasýslu ríkisins er meðal annars að stuðla að aukinni samkeppni á bankamarkaði. Ég held það sé flestum ljóst að enn sem komið er hefur þessi stofnun brugðist því hlutverki sínu,“ sagði Hannes Karlsson á aðalfundi KEA.

Stikkorð: FME KEA Bankasýslan Hannes Karlsson