„Það eru komnir nýir eigendur að félaginu og þeir vildu skipta um mann í brúnni. Það er ekkert óeðlilegt við það að vilja koma sínum áherslum að í rekstrinum,“ segir Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarmaður N1, spurð um ástæðu þess að Hermanni Guðmundssyni var sagt upp sem forstjóra olíuverslunarinnar í morgun. Eins og áður hefur verið greint frá var Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, ráðinn með stuttum fyrirvara til að taka við starfi Hermanns. Eggert kemur til starfa 1. september næstkomandi.

Framtakssjóður Íslands, sem er í eigu 16 lífeyrissjóða á 45% hlut í N1 á móti Íslandsbanka, Lífeyrissjóði verslunarmanna og smærri hluthöfum. N1 var áður í eigu eignarhaldsfélagsins BNT. Félagið fór í hendur nýrra eigenda í fyrra þegar kröfuhafar breyttu skuldum í hlutafé.

Samhliða því sem Hermanni var sagt upp í morgun var samið um starfslok hans. Margrét sagði það hefðbundinn starfslokasamning án þess að vilja fara nánar út í hvað í honum fólst.

Margrét segist engar áhyggjur hafa af því að að N1 verði forstjóralaust í um einn og hálfan mánuð. „Það ekkert tómarúm. Við erum með vel fúnkerandi framkvæmdastjórn og síðan munum við í stjórninni verða þeim innan handar,“ segir hún.

N1 á markað á næsta ári

Stefnt hefur verið að því að skrá N1 á hlutabréfamarkað. Margrét segir stefnuna setta á næsta ár. Vinna við það fer að hefjast og mun þá koma í ljós hvort og hvenær á næsta ári félagið verði skráð á markað.