Krónan hefði náð sér fyrr á strik ef gengi hennar hefði verið ráðast af framboði og eftirspurn í stað þess að binda hana með gjaldeyrishöftum, að sögn Benedikts Jóhannessonar, stjórnarformanns Nýherja.

Benedikt ræddi um gjaldeyrishöftin og lágt gengi krónunnar á aðalfundi Nýherja á föstudag í síðustu viku. Hann benti á að fyrir Íslendinga væri afar óheppilegt að búa við gjaldmiðil sem sveiflist mikið og njóti jafn lítillar virðingar og íslenska krónan.

Best fyrir útflutningsfyrirtækin að taka upp nýja mynt

Hann gagnrýndi hins vegar þá sem talað hafa fyrir því að hald í krónuna og mælti fyrir kostum þess að kasta henni fyrir róða:

„Eitt af því sem veldur því að sumir útflytjendur hafa snúist gegn því að Íslendingar taki upp erlenda mynt er einmitt veik staða krónunnar núna. Þeir virðast halda að með upptöku erlendrar myntar yrði horfið aftur til hágengisstefnu áranna fyrir hrun. Þetta er þó þvert á það sem kemur þeim best. Það væri einmitt best fyrir útflutningsgreinar að skipta um gjaldmiðil þegar gengi krónunnar er fremur lágt skráð og festa ávinninginn þannig í sessi. Mestu skiptir þó ef Íslendingar taka upp annan gjaldmiðil að það verði gert með hagsmuni bæði fyrirtækja og almennings í huga þannig að jafnvægi náist til framtíðar. Sumir vara við því að fórna krónunni og benda á efnahagserfiðleika víða í Evrópu máli sínu til stuðnings. Ég spyr á móti: Er hægt að benda á eitt einasta af þeim ríkjum sem í mestum vandræðum eru sem ekki hafði misst annaðhvort stjórn á ríkisfjármálum eða bönkunum, nema hvort tveggja hafi verið. Það er hins vegar vel þekkt að efnahagsvandi er hættulegur smitsjúkdómur og auðvitað hefur það mikil áhrif hér á Íslandi hvernig efnahagsástandið er austan hafs og vestan.“

Háir vextir fylgja litlum gjaldmiðli

Hann sagði jafnframt um hætturnar sem geta skapast af sveiflum krónunnar: „Sveiflur geta á einu augabragði sett afkomu fyrirtækja eða einstaklinga í uppnám. Útflutningsatvinnugreinar liðu fyrir allt of hátt gengi krónunnar á árunum fyrir 2008. Nú eru það hins vegar fyrirtæki sem veita þjónustu eins og Nýherji sem líða fyrir það að laun sem eru ágæt á íslenskan mælikvarða eru ekki lengur samkeppnishæf við það sem gerist í nágrannalöndum. Háir vextir valda því að Nýherji þarf að greiða meira fyrir sín lán en samkeppnisaðilar á Norðurlöndum. Það er vel þekkt að háir vextir eru fylgifiskur lítils gjaldmiðils.“