Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR), segir að samkomulag við Geysi Green Energy hafi leitt til þess að stjórn og stjórnendur Reykjavík Energy Invest (REI) stóðu frammi fyrir því í júní 2011 að selja hlut sinn í Enex-Kína og Envent eða kaupa hlut GGE. Haraldur Flosi sendi tilkynningu til fjölmiðla í kvöld vegna umræðu um sölu REI á hlut sínum í félögunum tveimur.

Haraldur segir að þess megi geti að í eignasölum undanfarna mánuði hafi tvær eignir Orkuveitunnar verið seldar án auglýsingar. Það hafi verið gert vegna sérstaka aðstæðna. Um er að ræða eignarhluti í Metani og hluti jarðarinnar Úlfljótsvatns.

Tilkynning frá stjórnarformanni OR í heild:

Í tilefni þeirrar fjölmiðlaumræðu sem orðið hefur um sölu Reykjavík Energy Invest (REI) á hlut sínum í Enex-Kína og Envent, vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri:

Fyrirkomulag á sölu Enex-Kína og Envent leiðir af samkomulagi REI við Geysir Green Energy (GGE) sem gert var í marsmánuði árið 2010, þess efnis m.a. að félögin skuldbundu sig gagnvart hvort öðru til að taka þátt í söluferli félaganna þegar og ef annar aðila krefðist þess. Þetta samkomulag var samþykkt af stjórn REI í formannstíð Kjartans Magnússonar þann 23. mars 2010 og undirritað af framkvæmdastjóra félagsins Hjörleifi Kvaran sama dag. Fundargerð umrædds stjórnarfundar var síðan lögð fyrir þáverandi stjórn OR þann 12. maí 2010.

Af þessu samkomulagi leiddi að stjórn og stjórnendur REI stóðu frammi fyrir því vali í júní 2011 að gera annað tveggja; selja hlut sinn í Enex-Kína og Envent til Orku Energy (OE) sem GGE hafði samþykkt ellegar kaupa hlut GGE. Sem sagt fá 3-400 milljónir í kassann eða leggja út 1.800 milljónir. Allar aðstæður í rekstri REI og ekki síður OR voru með þeim hætti að valið varð næsta einfalt.

Eftir því sem undirritaður best veit þá voru þessi viðskipti farsæl og til þess fallin að losa REI úr skuldbindingum sem félagið átti í miklum erfileikum með að standa undir.

Sala Enex-Kína og Envent hefur ítrekað verið kynnt í tengslum við aðgerðaráætlun OR. Eðlilega verður nú óskað eftir því við stjórnendur OR að sú kynning verði aukin og bætt enda leggur núverandi stjórn OR mikla áherslu á að fylgt sé þeim skýru reglum um sölu eigna sem hún setti í upphafi ársins 2011. Þessi sala, eins og áður segir, laut þó ekki þeim reglum vegna umrædds samkomulags milli REI og GGE frá því í mars 2010.

Þess má geta að í eignasölu undanfarinna mánaða hafa tvær eignir Orkuveitu Reykjavíkur verið seldar án auglýsingar vegna sérstakra aðstæðna. Það er eignarhlutur í Metani, sem seldur var Sorpu, og hluti jarðarinnar Úlfljótsvatns, sem seldur var skógræktarfólki og skátum.