„Í frjálsu viðskiptaumhverfi er það hluthafanna sem kjósa hæfasta fólkið og ákveða hverjir eiga að sitja í stjórnum fyrirtækja.," segir Niels Jacobsen,stjórnarformaður Össurar og forstjóri danska framleiðslufyrirtækisins William Demant Holding, stærsta hluthafa stoðtækjafyrirtækisins, í viðtali við Fréttablaðið í dag.

„Ég þekki ekki tölfræðina hér. En í Danmörku eru fimm prósent forstjóra konur. Þar þætti það fáránlegt að skipta út stjórnum í fyrirtækjum og velja úr hópi þeirra fimm prósenta kvenna sem stýra þar fyrirtækjum til stjórnarsetu. Að sjálfsögðu styðjum við það að konur nái frama í fyrirtækjum. En það á ekki að þrýsta því í gegn heldur verður þróunin að eiga sér eðlilegar ástæður. Konur eru um sextíu prósent nýrra háskólanemenda í Danmörku og því held ég að þetta mál leysist af sjálfu sér. Ég tel það ekki jákvætt að þrýsta málinu í gegn," segir Jacobsen í viðtalinu.

Ákveðið var á aðalfundi Össurar á föstudag að afskrá félagið úr íslensku kauphöllinni. Stjórnarformaður Össurar segir  erfitt að reka alþjóðlegt fyrirtæki á Íslandi þegar lögum og reglum er breytt. Sumar sé erfitt að fá nokkurn botn í en aðrar sé afturvirkar.

„Það er erfitt að reka fyrirtæki með afturvirkum lögum," bendir Jacobsen á í Fréttablaðinu og á þar sérstaklega við að yfirtökuskylda hluthafa miðist nú við 30% eignarhlut en var 40% áður. Það hafi verið óheillaskref. „Ég hef ekki séð neitt þessu líkt í öðrum löndum," segir Jacobsen.