„Við höfum brugðist hluthöfum. Ég er ekki stoltur af því,“ segir Allan Leighton Leslie, stjórnarformaður danska skartgripaframleiðandans Pandora. Hlutabréf fyriritækisins voru skráð á hlutabréfamarkað undir lok árs 2010. Pandora hefur ekki átt góðu gengi að fagna á markaði. Þvert á móti hefur gengið hrunið 367,5 dönskum krónum á hlut við skráningu í 75,7 krónur. Þetta jafngildir 80 prósenta gengishruni.

Tveir hafa vermt forstjórastól Pandoru síðan fyrirtækið var skráð á markað í Danmörku og hætti sá seinni nýverið. Norðmaðurinn Björn Gulden tók svo við um mánaðamótin.

Virði gengis Pandoru á markaði hefur bein áhrif á virði seljendaláns sem Seðlabankinn veitti eigendum danska bankans FIH haustið 2010. Hlutur Seðlabankans af heildarlánveitingum til kaupenda FIH, sem voru sænskir og danskir lífeyrissjóðir og tryggingafélög, nam jafnvirði 70 milljarða íslenskra króna. Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir skömmu síðan að sígandi gengi skartgripaframleiðandans á markaði hafi skilað að því að Seðlabankinn hefur fært lánið mikið niður, um 20 til 30 milljarða króna. Ekki er útilokað að niðurfærslan sé meiri.

Fram kom á hluthafafundi Pandoru í Kaupmannahöfn um helgina að búist er við að fyrirtækið velti 6 milljörðum danskra króna í ár og að 200 nýjar verslanir verði opnaðar. Afkoman í fyrra var ágæt. Tekjur numu rétt tæpum 6 milljörðum króna og jukust þær um 93% á milli ára.

Pandora
Pandora
© vb.is (vb.is)