Björg Eva Erlendsdóttir, fyrrv. fréttamaður og nú stjórnarformaður Ríkisútvarpsins (RÚV), segir um fylgi núverandi ríkisstjórnar að á svona tímum sé ekki spurningin um að toppa á réttum tíma heldur að botna á réttum tíma. Sá tími nálgist og svo fari „að rétta af“ eins og hún orðar það.

Þessi ummæli stjórnarformanns RÚV má finna á Facebook síðu Birgittu Jónsdóttur, alþingismanns, sem í gærkvöldi gerði nýjasta Þjóðarpúls Gallup að umræðuefni á síðu sinni. Eins og fram kom í fréttum RÚV í gærkvöldi mælist sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarinnar nú aðeins 28%. Aðeins einu sinni hefur ríkisstjórn mælst með minna fylgi í þjóðarpúlsinum en það var ríkisstjórn Geirs H. Haarde í janúar 2009, nokkrum vikum áður en hún lagði upp laupana.

„Sumir myndu segja af sér fyrir minna, en ekki á Íslandi, nei, aldrei á Íslandi,“ segir Birgitta á Facebook síðu sinni í kvöld og tengir umfjöllun um fyrrnefndan þjóðarpúls við færslu sína. Í athugasemd við eigin færslu útskýrir Birgitta að hún telji að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ættu að segja af sér, án þess þó að ríkisstjórnin segi af sér.

Fjölmargir aðilar skrifa ummæli við færslu Birgittu. Þar á meðal er Björg Eva.

„Á svona tímum er spurningin ekki um að toppa á réttum tíma heldur að botna á réttum tíma. Sá tími nálgast og svo má fara að rétta af,“ segir Björg Eva í athugasemd við ummæli Birgittu.

Nokkrar umræður skapast um málið og er Birgitta meðal annars spurð að því hvort að „ykkur“ – og þar er væntanlega vísað til þingmanna Hreyfingarinnar – hafi ekki verið í lófa lagið að fella ríkisstjórnina og af hverju það hafi ekki verið gert.

Í annarri athugasemd, sem skrifuð er tæpum 10 mínútum á eftir þeirri fyrri, segir Björg Eva; „Og helsti ljóður á ráði þessarar ríkistjórnar að hún líkist of mikið þeirri gömlu ofbeldisstjórn sem bíður nú handan við hornið með ómengaðan öfgakapítalismann sem við öll vildum losna við. Það er sannarlega vandlifað.“

Stutt síðar, þegar umræðan snýr að því hvort fylgið muni fara að einhverju leiti til Dögunar, sem er afsprengi Borgarahreyfingarinnar, segir Björg Eva að „auðvitað [muni] þjóðin ekki styðja neina Dögun myndarlega - reynslan er ólygin.“

Sjá Facebook síðu Birgittu.

Leiðrétting: Í upphaflegri útgáfu var flokkurinn Dögun sagður nýr flokkur Lilju Mósesdóttur. Sá flokkur heitir hins vegar Samstaða og var ekki til umræðu í fyrrnefndum athugasemdum.