Nýi stjórnarformaður Arion banka, hin sænska Monica Caneman, sat í framkvæmdastjórn SEB (Skandinaviska Enskilda) þegar bankakreppa herjaði á svíþjóð snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Hún segist hafa tekið virkan þátt í því að takmarka áhrif kreppunnar á bankann og sömuleiðis að byggja SEB og sænskan bankamarkað upp í kjölfar kreppunnar.

„Ég hef eins og áður sagði töluverða reynslu af því að byggja upp banka eftir kreppu. Þegar maður lendir í svona ótrúlega erfiðri aðstöðu, bæði fyrir bankann og eigendur hans og samfélagið allt, fær maður auðveldlega á tilfinninguna að ringulreið ríki. Bankinn er í sviðsljósi fjölmiðla nær daglega og margir hafa orðið fyrir áhrifum af því sem gerst hefur. Þá getur verið erfitt að feta réttan veg og því er mjög mikilvægt að stjórn bankans og framkvæmdastjórn hans skipuleggi vandlega það starf sem er fyrir höndum," segir Monica og ítrekar að fyrri reynsla hennar muni nýtast í starfi sínu í Arion.

Áfram verður að sinna viðskiptavinum

Monica Caneman tekur fram að mörg mikilvæg skref hafi verið stigin í rétta átt hjá Arion banka. „Starfseminni hefur verið skipt upp þannig að við getum annars vegar tekist á við þau vandamál sem fyrir hendi eru og hins vegar annast daglegan rekstur bankans. Það má ekki gleymast að fjöldi fyrirtækja og einstaklinga þarf að eiga eðlileg viðskipti við bankann, ef svo má að orði komast, og þeim viðskiptavinum verðum við að halda áfram að sinna vel. Samtímis er mikilvægt að horfa fram á veginn og setja sér markmið þegar búið er að leysa úr þeim vanda sem nú ríkir,“ segir Monica.

Monica Caneman fer nánar yfir starfsreynslu sína og núverandi verkefni í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.