Þrátt fyrir opnun á skráningu í Clearstream ákvað Íbúðalánasjóður að færa útgáfur hinna nýju íbúðabréfa til Euroclear í Belgíu. "Þessi ákvörðun kom mjög á óvart og var nánast óskiljanleg með hliðsjón af því að íslenskir markaðsaðilar eru virkastir í viðskiptum með bréf Íbúðalánasjóðs og búið var að opna leið fyrir erlenda fjárfesta. Forsvarsmenn sjóðsins töldu að þeirra ákvörðun myndi lækka vexti enn frekar og stækka markað fyrir hin nýju bréf. Vissulega lækkuðu vextir en ástæða þess var líklega frekar sú að Íbúðalánasjóður sleppti uppgreiðslumöguleika í nýju bréfunum sem átti við um húsbréfin sem þar af leiðandi báru hærri vexti," sagði Bjarni Ármannsson formaður stjórnar kauphallarinnar á aðalfundi hennar í gær.

Bjarni sagði að Verðbréfaskráning hefði leysti málið með þeim hætti að öll bréf í eigu Íslendinga eru vistuð hjá Euroclear í nafni Verðbréfaskráningar. VS hefur síðan endurútgefið bréfin hér heima þannig að öll viðskipti milli íslenskra aðila eru gerð upp hér. Það vekur athygli að 98% þeirra tæpu 400 milljarða sem gefnir voru út hjá Euroclear voru endurútgefnir hjá VS. "Fullyrða má að kostnaður viðskipta með skuldabréf Íbúðalánasjóðs hefur hækkað umtalsvert fyrir fjárfesta. Má nefna að fjárfestar greiða nú um 50 milljónir á ári í vörslugjald til Euroclear," sagði Bjarni.