Stjórnarformaður Excel Airways Group sem er í eigu íslensku flutningasamstæðunnar Avion Group, hefur ákveðið að hætta störfum hjá fyrirtækinu, segir í tilkynningu frá Avion Group.

Eamonn Mullaney mun láta af störfum þann 31. október 2006, segir í tilkynningunni, og Magnús Þorsteinsson, starfandi stjórnarformaður Avion Group mun taka við stjórnarformennsku í Excel Airways Group.

Eamonn Mullaney, sem er jafnframt stjórnarmaður í Avion Group, var einn af stofnendum Excel Airways í nóvember árið 2000. Eamonn hætti sem starfandi stjórnarformaður í upphafi árs og hefur síðan verið stjórnarformaður Excel Airways Group. Með þessu stytti hann vinnuviku sína í þrjá daga og undirbjó fyrirhuguð starfslok í lok sumarvertíðar.

?Við óskum Eamonn alls hins besta í framtíðinni og á hann að baki gjöfula og langa starfsævi í flugiðnaðinum. Eamonn hefur frá upphafi stýrt hröðum og miklum vexti Excel Airways og átti mikinn þátt í uppbyggingu félagsins. Fyrirtækið kveður Eamonn með þakklæti og óskar honum alls hins besta," segir Magnús um starfslok Eamonns í tilkynningu félagins.

Excel Airways var stofnað árið 1999 og er með höfuðstöðvar við Gatwick flugvöll á Englandi. Excel Airways, og rekstur á þess vegum, snýr að leiguflugi og almennri ferðaþjónustu og flytur félagið um þrjár milljónir farþega á ári, auk þess að útvega gistingu og aðra þjónustu.

Excel Airways er í dag tíunda stærsta leiguflugfélag í heimi og stefnir markvisst að því að auka hlut sinn á ferðamarkaði á komandi árum. Starfsmenn félagsins eru um 1.600.