Stjórnarformaður OMX, Urban Baeckstroem, sagði í gær að yfirtökutilboð kauphallarinnar í Dubai sé fjandsamlegt að mati stjórnar norrænu kauphallarsamstæðunnar, að því er fram kemur í erlendum fjölmiðlum. Baeckstroem segir jafnframt að tilboð kauphallarinnar í Dubai - sem verður að öllum hluta fjármagnað með reiðufé - sé ekki meira aðlaðandi heldur en tilboð Nasdaq, enda þótt það sé hvoru tveggja lægra og auk þess verður það að hluta til fjármagnað með útgáfu hlutabréfa.

Bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal greinir frá því að samlegðaráhrif af rekstri kauphallanna yrðu meiri með sameiningu OMX og Nasdaq heldur en ef kauphöllin í Dubai yfirtæki OMX. Á meðal sumra hluthafa OMX - einkum sænsku ríkisstjórnarinnar og Investor AB, eignarhaldsfélag Wallenburg fjölskyldunnar - ríkir mikill órói varðandi þann möguleika á að stjórnvöld í Dubai geti orðið eini eigandinn að kauphallarsamstæðunni. Blaðið hefur eftir Baeckstroem að hann hafi "aldrei nokkurn tíma ímyndað sér að annað fullvalda ríki myndi gera tilboð í félagið", en Baeckstroem starfaði í sænska fjármálaráðaneytinu á tíunda áratugnum þegar þáverandi ríkisstjórn réðst í einkavæðingaráform á sænska verðbréfamarkaðinum.

Að sögn Baeckstroem hafa forsvarsmenn kauphallarinnar í Dubai gert lítið sem ekkert aðhafst í aðdraganda yfirtökutilboðsins til að reyna vinna að vinna sér inn traust og trúnað á meðal stjórnar OMX. "Yfirleitt færðu símtal daginn áður en tilboð er lagt fram, en í þetta skiptið þurfti ég að lesa um það á netinu," segir Baeckstroem í samtali við sænska blaðið Dagens Nyheter. Sökum þessa telur hann einsýnt að stjórnendum kauphallarinnar í Dubai standi á sama um hver sé skoðun stjórnar OMX á tilboði þeirra og því verði að líta á það sem fjansamlegt.

Salan á LSE vísbending um að von sé hærra tilboði frá Nasdaq í OMX
Stærsti einstaki hluthafi OMX er Investor AB, sem fer með 10,7% hlut, og hefur félagið sagt að það sé "ekki augljóst" að yfirtökuboð kauphallarinnar í Dubai sé álitlegra heldur en Nasdaq. Sænsk stjórnvöld - sem eru næst stærstu hluthafar OMX með 6,6% hlut - hafa einnig gefið til kynna að þau séu fremur hliðholl tilboði Nasdaq, þar sem verðið sé ekki eini þátturinn sem muni ráða úrslitum. Hins vegar greindi Financial Times frá því í síðustu viku að ýmsir vogunarsjóðir hefðu á undanförnum misserum keypt um 25% hlut í OMX og að með þeim kaupum sé ljóst að mjög mismunandi viðhorf eigi eftir að verða uppi á meðal hluthafa OMX þegar kemur að því að greiða atkvæði um söluna á OMX, en allar líkur eru taldar á því að tilboð kauphallarinnar í Dubai eigi eftir að hljóta stuðning vogunarsjóðanna.

Kauphöllin í Dubai lagði fram yfirtökutilboð upp á 230 sænskar krónur á hlut í OMX á föstudaginn sem er töluvert hærra heldur en það sem bandaríska kauphöllin Nasdaq hafði áður komist að samkomulagi við OMX, en það tilboð hljóðaði upp á samtals 3,7 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 208 sænskum krónum á hlut. Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum að framkvæmdastjóri Nasdaq, Bob Greifeld, ætli að ferðast til Svíþjóðar í vikunni og ræða við stjórnendur og hluthafa OMX í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin.

Nasdaq greindi einnig frá því í gær að félagið hygðist selja 31% hlut sinn í Kauphöllinni í London (LSE) sökum þess að fyrirtækið telur "núverandi gengi hlutabréfa ekki endurspegla nægjanlega verðmæti hlutar Nasdaq í LSE". Félagið hafði áður sagst ekki hafa uppi nein áform um að selja hlut sinn í LSE en að mati sumra sérfræðinga er ástæða sölunnar um þessar mundir vísbending um að Nasdaq ætli að koma fram með hærra tilboð í OMX.