Það var þungur tónn í verktökum á Útboðsþingi sem Samtök iðnaðarins stóðu fyrir á fimmtudag og ljóst að fátt er  um fína drætti á útboðsmarkaði. Þá er mjög mikil óvissa um fjölmörg fyrirhuguð útboðsverkefni, eins og á vegum Orkuveitu Reykjavíkur vegna fjármögnunarvanda. Sama á við um Landsvirkjun og Landsnet.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, lýsti stöðunni ágætlega fyrir fundarmönnum í sinni ræðu eftir að hafa greint frá því að Orkuveitan hafi lagt mikið undir til að reyna að koma framkvæmdum við Hverahlíðarvirkjun af stað. Fjármögnun miðaði hins vegar hægt, ekki síst hjá væntanlegum orkukaupendum.

Ekkert að gerast!

„Ég vildi bara segja ykkur frá þessu, því þetta er algjört lykilatriði fyrir ykkur sem horfið fram á það, - þið eruð nú ekki vitlausari en hver annar og sjáið, - að það er ekkert að gerast! Við skulum ekkert vera að flækja þetta. Þetta minnir svolítið á það sem menn sögðu á Stalín tímanum í Rússlandi þegar spurt var; - hvernig hefur þú það í dag? - Ég hef það betra í dag en ég mun hafa það á morgun."

Ekki margir orkukaupendur á húninum

Guðlaugur sagði að gætt hafi ákveðins misskilnings í umræðunni um að hér hangi margir á húninum að kaupa orku af OR.

„Jú, þeir eru kannski tilbúnir að kaupa af okkur orku, en þeir eru kannski ekki tilbúnir að kaupa af okkur heil 90 megavött. Og t.d. ekki alveg tilbúnir að kaupa af okkur orku í 20 ár. Við verðum þó að hafa fullan 20 ára samning á bak við okkur til að fara í svona framkvæmdir, því annars verðum við að leggja út fyrir því og treysta á Guð og lukkuna þegar sá samningur rennur út. Því miður er ekkert félag á Íslandi í þeirri stöðu í dag."

Hægt að fara hratt af stað

Hann gat þess líka að þó búið væri að fá vilyrði fyrir fjármögnun á helmingi Hverahlíðarvirkjunar, þá væri framvindan ekki síður háð fjármögnun orkukaupenda á sínum verkefnum og þar væri róðurinn þungur í dag. Verkefnið væri samt mjög vel undirbúið og unnið sé að því að fá kaupanda að orku frá þeirri virkjun.

„Við erum nokkuð bjartsýnir að ef við fáum við kaupanda að þeirri orku, þá getum við farið mjög hratt af stað í það verkefni."

Þá sagði Guðlaugur í sinni ræðu að Orkuveitan væri með fjölmörg önnur verkefni í deiglunni. Þá væri ljós punktur í tilverunni að orkusalan vegna 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar væri tryggð til Norðuráls hvort sem af álveri í Helguvík yrði eða ekki.