„Ég er fullur tilhlökkunar að taka við [stjórnarformennsku í Orkuveitu Reykjavíkur ] og veit að það er mikil ábyrgð," segir Guðlaugur G. Sverrisson, nýkjörinn stjórnarformaður OR. Hann segir að hann vilji fyrst ræða við borgarstjóra, formann borgarráðs, forstjóra OR og stjórn áður en hann tjáir sig um framtíð Orkuveitunnar.

Aðspurður hvenær gengið hafi verið frá því að hann tæki við nýja embættinu segir hann að það hafi verið í gær.

Kjartan verður varaformaður OR

Guðlaugur tekur við stjórnarformennskunni af Kjartani Magnússyni, Sjálfstæðisflokki. Sá síðarnefndi verður varaformaður stjórnar OR. Guðlaugur kemur inn í stað Ástu Þorleifsdóttur, sem var fulltrúi F-listans og óháðra.

Guðlaugur er formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur. Hann er einnig verkefnastjóri hjá Úrvinnslusjóði.

Stjórn OR er að öðru leyti óbreytt. Auk fyrrnefndra tveggja eru í henni: Júlíus Vífill Ingvarsson, Sjálfstæðisflokki, Svandís Svavarsdóttir, Vinstri grænum og Sigrún Elsa Smáradóttir, Samfylkingu.