Björn Wahlroos, stjórnarformaður finnska fjármálafyrirtækisins Sampo, segir að pólitískar ákvarðanir lögðu grunninn að hruni fjármálakerfisins. Þó áttu einnig „brjálæðingar" í bankaheiminum hlut að máli. Meðal brjálæðinganna voru íslensku bankarnir og Swedbank.

Þetta kom fram í máli stjórnarformannsins á fundi í Stokkhólmi í gær samkvæmt Dagens Industri. Þar á Björn Wahlroos að hafa gagnrýnt íslensku bankana harkalega ásamt stjórnmálamönnum. Exista átti tæplega 20% eignarhlut í Sampo þangað til í október 2008 þegar hluturinn var seldur.

Björn Wahlroos sagði að markaðurinn hefði alltaf rétt fyrir sér og væri eitt stórkostlegasta fyrirbæri á jörðinni. En hann gagnrýnir gjörðir mannanna og ekki bara Íslendinga. Galna bankamenn hefði einnig verið að finna á Norðurlöndunum. „Swedbank hefði sennilega ekki lifað af nema fyrir innstæðutryggingar," sagði Wahlroos.