Svissneski bankinn UBS, sá evrópski banki sem hrunið á markaðnum með bandarísk undirmálslán hefur bitnað hvað harðast á, tilkynnti í gær að bankinn þyrfti að afskrifa 19 milljarða Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi. Þessi upphæð kemur til viðbótar við þá 18 milljarða dala sem bankinn hefur nú þegar afskrifað í bókum sínum.

Tap bankans á á fjórðungnum var 12 milljarðar dala og hefur stjórn UBS í kjölfarið farið þess á leit við hluthafa að eiginfjárstaðan verði styrkt sem nemur um ríflega 15 milljörðum dala. Er þetta í annað skipti á tveimur mánuðum sem bankinn neyðist til að grípa til slíkra aðgerða til að efla eiginfjárstöðuna.

Það eru illseljanlegir fasteignatryggðir fjármálagjörningar í bókum UBS sem valda afskriftunum en forráðamenn bankans hyggjast færa þær eignir í sérstakt félag. Bankinn hefur áður orðið fyrir barðinu á verðþróun slíkra eigna og ekki er langt síðan UBS þurfti að sækja sér um 13 milljarða dala til ríkisfjárfestingasjóða í Singapúr og Miðausturlöndum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .