Ekki er lengur tilgreint hvaða frumvörp eru rædd á fundum ríkisstjórnarinnar en um langa hríð hefur forsætisráðuneytið sent fjölmiðlum símbréf eftir ríkisstjórnarfundi með upplýsingum um það hvaða frumvörp voru á dagskrá.

Nú stendur hins vegar einungis í símbréfinu: „Þingmál." Síðan er vísað í hlutaðeigandi ráðuneyti. Eins og gefur að skilja er ómögulegt að vita til hvaða ráðuneytis verið er að vísa.

„Forsætisráðherra tók, eftir umræður í ríkisstjórninni og að höfðu samráði við þingflokka stjórnarflokkanna, þá ákvörðun að gera ekki grein fyrir efni frumvarpa fyrr en eftir að þingflokkarnir hafa um þau fjallað," segir Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra.

„Framlagning frumvarpa frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar á Alþingi er háð samþykki þingflokka stjórnarflokkanna og eðlilegt að fjölmiðlar fái ekki upplýsingar um þau fyrr en þingflokkarnir hafa samþykkt þau fyrir sitt leyti. Fyrir kemur að þingflokkarnir hafi athugasemdir við frumvörp og eftir atvikum er þeim breytt samkvæmt því."