Stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur sem halda átti í dag hefur verið frestað. Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, segir ástæðuna augljósa; óvænt stjórnarskipti í borginni. "Það hefur verið boðað að skipt verði um stjórnir í nefndum og ráðum borgarinnar. Þar af leiðandi verður kosin ný stjórn Orkuveitunnar á fimmtudag," segir hann.

Á fimmtudag er ráðgert að halda borgarstjórnarfund þar sem nýr meirihluti tekur formlega við völdum í borginni.

Hjörleifur segir að núverandi stjórnarformanni OR, Bryndísi Hlöðversdóttur, hafi ekki þótt við hæfi að taka mál til afgreiðslu hjá stjórn OR í dag í ljósi þess að umboð þessarar stjórnar rennur út á fimmtudag.