Að sögn Más Wolfgangs Mixa fjármálasérfræðings getur verið erfitt fyrir fólk að kjósa menn í stjórn Byrs í dag þar sem hvorugt framboðið í stjórn Byrs hefur gefið út hver stefnuskrá þess er. ,,Það framboð sem skilgreinir sig frekar sem grasrótarframboð hefur að mestu snúist í kringum góða viðskiptahætti. Hitt framboðið er augljóslega ekki sammála því að slæmir viðskiptahættir hafi tíðkast. Um þetta hefur deilan að mestu snúist, ekki framtíðarsýn framboðanna. Erfitt er því að skilgreina markmið hvorrar stjórnar," sagði Már í samtali við Viðskiptablaðið.

Már segir að það sé nauðsynlegt að horfa á hvernig ný stjórn muni skilgreina fyrirtækið í framtíðinni. ,,Hvernig ætlar ný stjórn að skilgreina Byr? Slík skilgreining þarf að vinna með stjórnvöldum í tengslum við hugmyndir um sparisjóðakerfið í heild sinni á Íslandi í framtíðinni," sagði Már. Hann segir ennfremur að það sé spurning sem menn hljóti að spyrja sig hvort það sé vilji til að sameina alla sparisjóði? ,,Ef svo er verður einn sparisjóður starfandi sem liti eins út á öllu landinu eða verða sparisjóðaeiningar fluttar aftur til svæða þeirra með sérstöðu þeirra í inn- og útlánum og þá með höfuðstöðvar fyrir sameiginlegum rekstri? Í því sambandi má nefna hvort að stefnt sé að því að Sparisjóður Hafnarfjarðar verður endurreistur til að þjónusta aðallega Hafnfirðingum"?

Már segir að spurning hljóti að vera hvort  sparisjóðir skilgreini sig sem alhliða banka eða hvort starfsemi þeirra verði takmörkuð við viðskiptabankaþjónstu? Í því felst að fjárfestingarstarfsemi þeirra verður flutt úr starfseminni. ,,Verða hagnaðarsjónarmið ráðandi eða verður frekar stefnt að ákveðinni arðsemi sem telst vera viðunandi? Hvernig verður þeim hagnaði ráðstafað? Fer hann einungis til hluthafa eða til eflingar ýmissa þátta í heimasvæði hvers sparisjóðs? Þetta er skoðun sem ekki aðeins stofnfjáreigendur ættu að mynda sér. Eins og staðan er nú er þetta skoðun sem Alþingi og almenningur þarf að mynda sér," sagði Már.