Stjórnarkreppa í Portúgal hefur sett þarlenda fjármálamarkaði í uppnám. Töluverðar lækkanir hafa verið á hlutabréfamarkaðnum í dag og ávöxtunarkrafa á portúgölsk ríkisskuldabréf hefur hækkað umtalsvert.

Segja má að stjórnarkreppan hafi hafist fyrir alvöru í gær þegar leiðtogi annars stjórnarflokkanna, Paulo Portas, sagði af sér sem utanríkisráðherra, innan við sólarhringi eftir að hinn óflokksbundi fjármálaráðherra, Vítor Gaspar, sagði af sér. Pedro Passos Coelho, forsætisráðherra Portúgals, hefur sagst ætla að sitja áfram, en búist er við frekari afsögnum ráðherra á næstunni.

Í frétt Blooomberg er stjórnarkreppan rakin til niðurskurðarþreytu í portúgölskum almenningi og hjá stjórnmálamönnum. Portas sagði af sér eftir að greint var frá því að Maria Luis Albuquerque myndi taka við af Gaspar og sagði Portas að nýi ráðherrann myndi ekki gera annað en halda áfram niðurskurðarstefnu ríkisstjórnarinnar.

Stjórnarkreppan hefur sett 78 milljarða evra björgunaráætlun Portúgals, ESB og AGS, í hættu og má rekja hræðsluna á fjármálamörkuðum til þess.

PSI 20 hlutabréfavísitalan lækkaði mest um 6,9% í dag, en þegar þetta er skrifað er vísitalan fimm prósentum lægri en hún var í lok gærdagsins. Ávöxtunarkrafa á tíu ára portúgölsk ríkisskuldabréf hækkaði mest um 130 punkta í dag en krafan er nú um 7,56% og er það í fyrsta skipti á þessu ári sem krafan hefur farið yfir sjö prósent.