Stjórn Lindarhvols fékk tæplega 9,5 milljónir króna í stjórnarlaun á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu. Árið 2016 námu stjórnarlaunin 12,1 milljón.

Þórhallur Arason, stjórnarformaður og fyrrum skrifstofustjóri hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, fékk rúmlega 4 milljónir á síðasta ári. Þá fengu Ása Ólafsdóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og Haukur C. Benediktsson, fyrrum forstöðumaður Eignasafns Seðlabanka Íslands, 2,7 milljónir hvort.

Á haustmánuðum voru launakjör stjórnar lækkuð um helming. Stjórnarlaun voru óbreytt frá haustmánuðum síðasta árs þann tíma sem félagið hafði starfsemi með höndum á þessu ári. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis gagnrýndi kostnað við rekstur Lindarhvols í fjölmiðlum um svipað leyti og launakjörunum var breytt.

Rekstrarkostnaður Lindarhvols nam 56,6 milljónum króna árið 2016. Þar af runnu 39 milljónir til lögmansstofu Steinars Þórs Guðgeirssonar, hæstaréttarlögmanns, fyrir keypta þjónustu. Ársreikningur félagsins fyrir síðasta ár liggur ekki fyrir.