Ron Wayne Burkle, sem er í 98. sæti á lista Forbes yfir ríkustu menn heims, settist í stjórn Eimskips á aðalfundi félagsins síðastliðinn fimmtudag 31. mars, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Burkle er stjórnarformaður bandaríska fjárfestingarsjóðsins Yucaipa Companies sem á 32,3% hlut í Eimskipi.

Burkle komst í fréttirnar vorið 2006 þegar lausráðinn blaðamaður, Stern að nafni, hjá slúðurblaðinu The New York Post reyndi að kúga hann til að greiða sér 220 þúsund dali gegn því að fjalla með jákvæðum hætti um Burkle á síðum blaðsins. Stern hafði þá skrifað fréttir um að Burkle hefði verið að hitta ofurfyrirsætuna Gisele Bundchen og flogið leikaranum Toby Maguire í partí til sín með einkaþotu. Burkle kannaðist ekkert við þessi samskipti og kvartaði undan fréttunum við fjölmiðlakónginn Rupert Murdoch, sem á og rekur New York Post.

Þegar sú umkvörtun skilaði engu brá Burkle á það ráð að taka upp fund með Stern á myndband og fá bandarísku alríkislögregluna, FBI, til að fylgjast með. Bandarískir fjölmiðlar fullyrtu að á því myndbandi mætti sjá að Stern bauð Burkle að borga sér 220 þúsund dali inn í fatafyrirtæki sem hann hafði nýverið stofnað. Stern var þá rekinn af New York Post en hann hélt því alltaf fram að hann hefði verið leiddur í gildru. Málið gegn honum var fellt niður nokkru síðar og Stern stefndi Burkle í kjölfarið.