Æðstu stjórnendur Fjarskipta hf., rekstrarfélags Vodafone á Íslandi, tóku þátt í hlutafjárútboði sem lauk síðastliðinn fimmtudag. Samtals keyptu fjórir framkvæmdastjórar og Ómar Svavarsson, forstjóri félagsins, hlutabréf fyrir tólf milljónir króna í eigin nafni. Tilkynnt var um viðskiptin til Kauphallar í dag.

Framkvæmdastjórarnir sem fjárfestu eru Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Vodafone sem keypti hlutabréf fyrir fimm milljónir króna. Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs keypti fyrir 500 þúsund krónur og Jóhann Másson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs einnig. Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, fjárfesti fyrir fjórar milljónir króna. Ómar Svavarsson keypti hlutabréf fyrir 2 milljónir. Öll viðskiptin voru gerð í almenna útboðinu sem haldið var dagana 4. til 6. desember á genginu 31,5 krónur á hlut.

Þá fjárfesti Vilmundur Jósefsson, stjórnarmaður í Vodafone og formaður Samtaka atvinnulífsins, fyrir samtals um 8,7 milljónir króna. Félag hans, Svartá ehf., keypti hlutabréf fyrir tæplega 3,7 milljónir króna og hann sjálfur fyrir fimm milljónir, samkvæmt tilkynningum til Kauphallar.