Hinn 23. nóvember seldi Benedikt Jó­hannesson, stjórnarformaður Nýherja, og aðilar honum tengdir bréf í félaginu að nafnvirði alls níu milljónir króna á genginu 14,7. Nam söluandvirðið því 132,3 milljónum króna. Rúmlega viku seinna, eða 3. desember ákvað stjórn félagsins að bjóða út allt að 40 milljónir hluta í lokuðu hlutafjárútboði og nýta þar með heimild aðalfundar frá 14. mars 2014 til hlutafjárhækkunar, þar sem hluthafar félagsins féllu frá forgangsrétti að hinum nýju hlutum.

Gert að höfðu samráði við regluvörð

Benedikt segir í samtali við Við­ skiptablaðið að ekkert óeðlilegt hafi verið við viðskiptin eða tímasetningu þeirra. „Ég talaði við regluvörð Nýherja áður en ég tók ákvörðun um að selja, eins og mað­ ur gerir alltaf. Þá fór ég aftur yfir málið með honum eftir að ég heyrði að menn væru að velta þessu fyrir sér. Þá hef ég rætt við lögfræðinga um málið og þeir segja allir að ég hafi ekki brotið neinar reglur eða lög. Málið er að ákvörðun stjórnar þann 3. desember hefði getað farið á hvern veginn sem var. Ég vissi ekki þegar ég seldi bréfin hvort af útboðinu yrði.“

Fengi 22,5 milljónum króna meira ef hann hefði selt í dag

Frá því að Benedikt seldi sína hluti í fyrirtækinu hefur gengi bréfa Nýherja hækkað verulega og var lokagengi bréfa félagsins 17,2 krónur í gær. Það þýðir að hefðu hlutirnir ekki verið seldir hefðu þeir verið um 154,8 milljóna króna virði, eða um 22,5 milljónum meira en fengust fyrir þá í sölunni í nóvember. Gengi bréfa Nýherja hefur hækkað um ríflega 300% á árinu. Gengi bréfanna 2. janúar 2015 var 5 krónur á hlut en var í gær 17,2 krónur, eins og áður segir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .