Þau Stefán Benediktsson, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Björn Agnar Magnússon fóru í dag á fund sérstaks saksóknara vegna málefna hjúkrunarheimilisins Eirar. Þremeningarnir afhentu embættinu gögn um stjórnarhætti hjúkrunarheimilisins og óskuðu eftir því að sérstakur saksóknari athugaði hvort tilefni væri til að rannsaka starfshætti Eirar á síðustu árum. Frá þessu er greint á vef Morgunblaðsins .

„Þeir tóku við gögnunum og við skýrðum út fyrir þeim einstaka þætti í ferli málsins. Síðan ætluðu þeir að vera í sambandi við okkur síðar,“ hefur mbl.is eftir Stefáni Benediktssyni. Hann segist vilja rannsókn á því hvers vegna menn héldu áfram að selja og leigja íbúðir eftir að ákveðnir stjórnarmenn vissu að fyrirtækið stefndi í greiðsluþrot.