*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 7. mars 2021 12:29

Stjórnarmenn eru ekki klappstýrur

Formaður Viðreisnar segir að fjármálaráðherra hafi skipað undirmann sinn í stjórn Póstsins til að losna við gagnrýni.

Jóhann Óli Eiðsson

Vandamál Íslandspósts eru á ábyrgð stjórnenda og meirihluta stjórnarflokkanna en skrifast ekki á einn fulltrúa minnihlutans á Alþingi. Þetta skrifar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, á Facebook-síðu sína en tilefnið er að fulltrúa flokksins í stjórn Póstsins var hent úr henni á aðalfundi síðastliðinn föstudag. 

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá var Thomas Möller ekki tilnefndur áfram til stjórnarsetu á aðalfundi. Í hans stað hlaut Guðmundur Axel Hansen, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu skipun. 

„Bjarni Benediktsson telur að vandi Íslandspósts verði leystur með því að losa sig við fulltrúa Viðreisnar úr stjórninni. Fulltrúa sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að bæta reksturinn og hagræða síðustu árin, sinnt stjórnarsetu sinni af alúð, verið gagnrýninn og veitt aðhald, eins og stjórnarfólk á að gera. Allt í þágu gagnsæis, samkeppnissjónarmiða, þjónustu og almannahagsmuna. Það er mikill misskilningur ef Sjálfstæðisflokkurinn telur, með fullum stuðningi VG, að stjórnarseta feli lítið annað í sér en kaffi og kleinur,“ ritar Þorgerður og bætir við að stjórnarmenn eigi ekki að vera klappstýrur.

Samkvæmt fundargerðum stjórnar Póstsins samþykkti stjórnin að Thomas myndi starfa að verkefnum hjá félaginu í umboði stjórnar á meðan leitað var að nýjum forstjóra undir lok síðasta árs. Birgir Jónsson hafði þá sagt starfi sínu lausu og var Þórhildur Ólöf Helgadóttir ráðin um mánuði síðar. Fékk Thomas það hlutverkt að gæta að eftirfylgni við stefnu stjórnar í ákvarðanatöku og daglegum rekstri.

„Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það eru erfiðleikar við stjórnun Íslandspósts. Lausn fjármálaráðherra er að losa sig við þann fulltrúa minnihluta í stjórn, sem hefur veitt aðhald og hugsanlega verið óþægilegur á stundum. Vandamál Íslandspósts eru á ábyrgð stjórnenda og meirihluta stjórnarflokkanna en skrifast ekki á einn fulltrúa minnihlutans á Alþingi. Þetta er staðfesting á því að fjármálaráðherra hleypur undan stjórnskipulegri ábyrgð sinni,“ segir Þorgerður.

Fjármála- og efnahagsráðherra hafi gengið hart á eftir því að Viðreisn myndi tilnefna annan stjórnarmann en þau hafnað því. Þá hafi ráðherra brugðist við með því að setja undirmann sinn úr ráðuneytinu í hans stað. „Gamla Ísland var að hringja,“ segir hún að lokum.

Stikkorð: Íslandspóstur