Stjórnarmönnum nýsköpunarfyrirtækja verður veitt heimild til að fresta skattlagningu á söluhagnaði hlutabréfa, sem þeir hafa öðlast á grundvelli kaupréttar, líkt og um hefðbundin launþega sé að ræða. Þetta kemur fram í drögum að frumvarpi að breytingum á ýmsum lögum um skatta og gjöld sem er kynnt var nýverið í samráðsgátt stjórnvalda.

Samkvæmt gildandi rétti hefur það verið meginregla að þegar kaupréttarverð er lægra en almennt gangverð bréfa hefur mismunurinn verið talinn launamanni til almennra tekna. Skattlagningu í almennu þrepi er aftur á móti frestað þar til bréfin eru seld. Hingað til hefur umrætt ákvæði aðeins tekið til launþega en nú er lagt til að ákvæðið verði útvíkkað til stjórnarmanna nýsköpunarfélaga.

„Þessi rýmkun á ákvæðinu myndi hafa það í för með sér að nýsköpunarfyrirtæki geti í meiri mæli notið sérfræðiþekkingar frá stjórnarmönnum félagsins og haldið þekkingu innan félagsins með því að umbuna þeim með kaupréttum án þess að til skattlagningar komi fyrr en viðkomandi selur bréfin,“ segir í athugasemd með frumvarpinu.

Fresta hagnaði vegna breytanlegra bréfa

Þá er einnig lagt til að skattlagningu breytanlegra skuldabréfa, það er bréfa sem unnt er að breyta í hlutafé í stað þess að eiga skuldabréfið til gjalddaga, verði breytt. Hingað til hefur hagnaðurinn, ef bréfinu er breytt í hlutafé á lægra verði en almennt gengur og gerist, verið skattlagður við sölu bréfanna í stað þess að miðað sé við tímamark nýtingar breytiréttarins.

„Sé eigandinn lögaðili þarf hann að standa skil á tekjuskatti á því tekjuári sem breyting skuldabréfsins í hlutabréf á sér stað þó hann hafi enn ekki innleyst hagnaðinn af hærra verði skuldabréfanna með sölu hlutabréfanna. Lagt er til að skattlagningunni verði frestað um tvenn áramót í tilviki lögaðila vegna viðskipta hans með breytanleg skuldabréf við lögaðila sem [telst nýsköpunarfyrirtæki],“ segir í greinargerðinni. Með því móti væri hægt að auðvelda slíkum félögum að afla sér fjármagns. Ekki er lagt til að slík undanþága standi einstaklingum til boða.

Þá er einnig lagt til að söluhagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar, sem stofnast þegar hlutabréfum í einu félagi er skipt fyrir bréf í öðru félagi að öllu leyti, teljist ekki til skattskyldra tekna fyrr en viðtökuhlutabréfin eru seld.

Fleiri tilvísanir í hegningarlögunum

Frumvarpsdrögin hafa enn fremur að geyma breytingar á ákvæðum laga um yfirskattanefnd – því miður ekki þá breytingu að fleiri úrskurðir nefndarinnar skuli birtir á vefsvæði hennar – og breytingatillögur á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Lögunum var síðast breytt árið 2020 en í ljós hefur komið að sú breyting mismunar félagaformum. Er því lagt til að undanþágur um staðgreiðslu af arði taki einnig til kaupfélaga, samvinnufélaga og annarra félaga.

Að endingu er í frumvarpinu að finna breytingu á refsilöggjöfinni. Þar er bent á að í upptalningu almennra hegningarlaga, á refsiverðum skattalagabrotum, sé ekki að finna tilvísun til laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Skoðun leiddi í ljós að hið sama gilti um lög um erfðafjárskatt, lög um fjársýsluskatt og lög um stimpilgjald. Er stórfelldum brotum gegn þeim lögum nú bætt við ákvæði hegningarlaganna um stórfelld skattalagabrot.

Frumvarpsdrögin voru kynnt í samráðsgáttinni í gær og er frestur til umsagna veittur til miðrar næstu viku. Slíkt er viku skemmri frestur en vant er.