Stjórnarmenn Isavia fá hæstu launin af stjórnarmönnum opinberra hlutafélaga á Íslandi. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Guðlaugar Þórs Þórðarsonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi.

Í svari fjármálaráðherra kemur fram að aðalmenn stjórnar Isavia hafi 137 þúsund krónur á mánuði og stjórnarformaður tvöfalda þá fjárhæð. Varamenn stjórnarinnar fá 65 þúsund krónur fyrir hvern fund.

Næsthæstu launin fá stjórnarmenn Rarik, en aðalmenn hennar fá 115 þúsund krónur í mánaðarlaun. Stjórnarmenn Íslandspósts fá þriðju hæstu launin, en þar fá aðalmenn 100 þúsund krónur á mánuði. Stjórnarmenn Orkubús Vestfjarða koma þar næst á eftir með 95 þúsund krónur á mánuði. Í öllum tilvikum fá stjórnarformenn tvöföld laun stjórnarmanna.