*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 4. mars 2015 15:03

Stjórnarmenn Isavia fá hæstu launin

Aðalmenn í stjórn Isavia ohf. fá 137 þúsund krónur á mánuði og formaðurinn tvöfalda þá fjárhæð.

Ritstjórn
Ingimundur Sigurpálsson er formaður stjórnar Isavia og er því launahæsti stjórnarformaður opinbers hlutafélags.
Haraldur Guðjónsson

Stjórnarmenn Isavia fá hæstu launin af stjórnarmönnum opinberra hlutafélaga á Íslandi. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Guðlaugar Þórs Þórðarsonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi.

Í svari fjármálaráðherra kemur fram að aðalmenn stjórnar Isavia hafi 137 þúsund krónur á mánuði og stjórnarformaður tvöfalda þá fjárhæð. Varamenn stjórnarinnar fá 65 þúsund krónur fyrir hvern fund.

Næsthæstu launin fá stjórnarmenn Rarik, en aðalmenn hennar fá 115 þúsund krónur í mánaðarlaun. Stjórnarmenn Íslandspósts fá þriðju hæstu launin, en þar fá aðalmenn 100 þúsund krónur á mánuði. Stjórnarmenn Orkubús Vestfjarða koma þar næst á eftir með 95 þúsund krónur á mánuði. Í öllum tilvikum fá stjórnarformenn tvöföld laun stjórnarmanna.