Frummælandi á ráðstefnunni Góðir stjórnarhættir-Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum verður Lucy P. Marcus, sem er þekktur prófessor í leiðtogafræðum og stjórnarháttum við IE Business School í Madríd.

Ráðstefnan, sem er samstarfsverkefni Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins, Nasdaq á Íslandi og Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, er sú fjórða í röðinni og verður haldin í Hörpu 21. mars næstkomandi klukkan 9:00 til 12:00.

Lucy P. Marcus stjórnar eigin sjónvarpsþáttum hjá Reuters sem kallast In the boardroom with Lucy Marcus, auk þess að koma með regluleg innslög hjá BBC um hlutverk stjórna í fyrirtækjum. Einnig skrifar hún reglulega fyrir Harvard Business Review og fleiri tímarit.

Endurspegla ekki veruleika fyrirtækjanna

Í fréttatilkynningu um ráðstefnuna, segir að einnig sé reglulega vitnað í hana í fjölmiðlum eins og New York Times, Wall Street Journal, Financial Times, Newsweek og Sky viðskiptafréttum.

Á ráðstefnunni fjallar hún um hvað stjórnarmenn þurfa að hafa í huga hvað varðar fortíð og framtíð stjórnarhátta.

„Hún hefur varað við því að stjórnarmenn lifi í einhvers konar takmörkuðum veruleika sem endurspeglar ekki þann raunverulega sem fyrirtækið starfar í,“ segir í tilkynningunni.

„Hún bendir á að ákvarðanataka sem tekur ekki mið af aðstæðum og hagsmunaaðilum getur verið varasöm. Það er þörf fyrir aukna meðvitund hjá stjórnarmönnum framtíðarinnar.“