Samþykkt var á aðalfundi MP banka, sem fram fór í gær, að veita stjórnarmönnum bankans aukagreiðslu vegna starfa á síðasta fjárhagsári hans. Þorsteinn Pálsson, stjórnarformaður MP banka, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það var samþykkt tillaga frá hluthafa að það yrði greitt viðbótargjald fyrir liðið starfsár vegna þess að það var óvenjulegt að því leyti að það fór svo mikill tími í sameiningarviðræður. Þetta var tillaga um að greiða sérstaklega fyrir vinnu vegna þeirra,“ segir Þorsteinn. Hann segir Guðmund Jónsson hafa lagt tillöguna fram.

Spurður hve há fjárhæðin sé segir hann að hún muni nema helmingi mánaðarlauna stjórnarmeðlima. Samkvæmt ársreikningi síðasta árs var Þorsteinn með 550 þúsund krónur í mánaðarlaun sem stjórnarformaður, en aðrir stjórnarmeðlimir, sem eru fjórir talsins, fengu greiddar 275 þúsund krónur hver.

Samkvæmt þessu mun aukagreiðsla til Þorsteins nema 275 þúsund krónum, en aðrir stjórnarmeðlimir fá 137,5 þúsund krónur hver. Nemur aukagreiðslan í heildina því 825 þúsund krónum.