Skattyfirvöld og saksóknarar hafa til rannsóknar mál gegn þremur einstaklingum sem tengjast Play Air. Um er að ræða tvo stjórnarmenn félagsins auk forstjóra þess. Þetta er meðal þess sem kemur fram í útboðsgögnum Play.

Skráningarlýsing Play var birt í gær en flugfélagið hyggst bjóða fjárfestum að kaupa hluti í því á genginu 18-20 krónur á hlut. Að því búnu er stefnt að skráningu á First North markaðinn. Útboðið hefst á fimmtudag, sama dag og jómfrúrflug félagsins leggur af stað til London.

Í lýsingunni er þess getið að skattyfirvöld séu með opin mál sem varða Maríu Rúnarsdóttur, sú á sæti í stjórn félagsins, og fjármagnstekjur forstjórans Birgis Jónssonar. Í lýsingunni segir að María hafi frá síðasta ári verið til rannsóknar vegna skattframtala sinna árin 2011 og 2012. Ekki er tekið fram í lýsingunni hvort um tekju- eða gjaldár er að ræða í því samhengi og þess er heldur ekki getið hvar rannsóknin er staðsett. Um meintan vantalinn tekjuskatt er að ræða. Ártölin sem nefnd eru til sögunnar eru áhugaverð í ljósi þess að þau virðast vera á grensunni hvað venjubundinn sex ára frest til endurákvörðunar varðar.

Hvað Birgi varðar segir að embætti Skattrannsóknarstjóra hafi hafið rannsókn á skattskilum hans í september 2018 en rannsókn virðist lokið. Á árum áður bjó Birgir í Rúmeníu þar sem hann stýrði prentsmiðju og hverfist deilan um það hvort tekjur hafi fallið til eftir að heimilisfesti hans færðist til Íslands að nýju eður ei. Í lýsingunni er þess getið að málið sé enn opið bæði hjá héraðssaksóknara þrátt fyrir að deilt sé um lagatúlkun hjá Skattinum. Þá segir þar enn fremur að forstjórinn telji að fella eigi málið niður.

Þá er þess getið að stjórnarmaðurinn Einar Örn Ólafsson, oft nefndur í sömu andrá og Skeljungur, sé til rannsóknar hjá embætti Héraðssaksóknara. Þar er á ferð hans þáttur í Skeljungsmálinu svokallaða en þar hefur hann, ásamt fimm öðrum, stöðu sakbornings. Rannsókn er ekki lokið.

Að endingu er vert að rifja það upp að á árdögum flugfélagsins afréð einn stofnenda þess, Bogi Guðmundsson, að fara fram á það að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í lýsingunni er þess getið að deilan hafi verið sætt áður en til úrskurðar kom.

Samkvæmt samkomulaginu ber Play að greiða tveimur félögum í eigu Boga tilteknar fjárhæðir þegar, eða ef, flugfélagið nær tilteknum árangri í rekstri sínum. Að hluta til er um endurgreiðslu að ræða á kostnaði sem Bogi lagði út fyrir. Báðir aðilar samþykktu að falla frá öllum mögulegum kröfum, sem hafa orðið til eða kunna að verða til seinnar meir, og er því um fullnaðaruppgjörgjör að ræða. Í lýsingunni er sagt að greiðslur til Boga samkvæmt samkomulaginu séu smávægilegar í stóra samhenginu og komi ekki til með að hafa áhrif á rekstur félagsins í framtíðinni.