Þórdís Sigurðardóttir, stjórnarformaður Dagsbrúnar, Gunnar Smári Egilsson, fyrrum forstjóri og Árni Hauksson, stjórnarmaður í Dagsbrún, gengu í dag frá kaupum á hlutabréfum í Dagsbrún fyrir alls að kaupverði 2.472 milljónir króna. Alls er um liðlega 497 milljónir hluta að ræða.

Liðlega 40% kaupanna m.v. markaðsvirði er uppgjör á framvirkum samningum og er gengi í þeim viðskiptum frá 4,64 og upp í 5,55. Að meðaltali er kaupverðið á genginu 5,11 en lokagengi á bréfum Dagsbrúnar í dag var 4,75.

Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar er um uppgjör á framvirkum samningum í gegnum Fjárfestingarfélagið Selsvör ehf. að ræða, en þar eiga Gunnar Smári, sem látið hefur af störfum sem forstjóri Dagsbrúnar, og Árni Hauksson 35% hlut hvor og Þórdís Sigurðardóttir 30%.

Auk uppgjörsins mun Selsvör hafa keypt bréf fyrir 725,5 milljónir króna á genginu 4,88. Félags em er í eigu Árna Haukssonar, Klapparás, keypti bréf fyrir nær 391 milljón króna, samkvæmt tilkynningu til Kauphallar. Gengið var hið sama eða 4,88. Loks keypti Þórdís Sigurðardóttir í eigin nafni bréf fyrir nær 335 milljónir króna á sama gengi. Alls nema kaup þessara einstaklinga og félaga þeirra tengdum 2.472 milljónum króna með uppgjöri á framvirkum samningum.

Gengi bréfa Dagsbrúnar lækkaði í dag um 2,9% og var í lok dags 4,75, eins og áður sagði.

Frá því greint var frá slæmu sex mánaða uppgjöri Dagsbrúnar 16. ágúst síðastliðinn hefur gengi hlutabréfa félagsins lækkað um liðlega 10%.