Lögfræðingar Landic Property hafa sent stjórnarmönnum Stones Invest bréf þess efnis að Landic telji þá bera persónulega ábyrgð á vanefndum Stones Invest varðandi Keops Development.

Í bréfinu kemur m.a. fram að fjárnámskrafa verði gerð á þá, standi félagið ekki skil á því sem það skuldar Landic Property. Michael Sheikh, framkvæmdastjóri hjá Landic Property, segir í Börsen um þetta mál:

„Ef það á að hafa einhverja þýðingu að menn sitji í stjórn fyrirtækja er mikilvægt að stjórnin sinni skyldum sínum og hafi eftirlit með framkvæmdastjórninni. Því höfum við sent stjórnarmönnum Stones Invest áminningu um að við áskiljum okkur rétt til að gera þá persónulega ábyrga fyrir skaðabótum.“

Eftir því sem Börsen greinir frá hefur Hugo Andersen, virtur fjármálamaður í Danmörku, sagt sig úr stjórn Stones Invest í framhaldinu.

Stones Invest hefur töluvert verið til umræðu í dönskum fjölmiðlum að undanförnu og ljóst er að staða félagsins er mjög veik. Sem dæmi um það má nefna að rekstur danska glerfyrirtækisins Homegaard, sem er í eigu Stones, er að stöðvast þar sem Stones getur ekki staðið undir rekstrinum. Einnig skuldar Stones Roskilde bankanum 500 milljónir danskra króna.