Forseti Ítalíu, Sergio Mattarella er talinn ætla að biðja fyrrum framkvæmdastjóra hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að leiða ríkisstjórn í landinu eftir að hafa hafnað fulltrúa stærstu flokkanna í landinu sem fjármálaráðherra. Ólíklegt er að ríkisstjórnin hljóti samþykki þingsins og því verður boðað til nýrra kosninga. Hefur dagsetningin 9. september verið nefnd til sögunnar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hugðust flokkarnir tveir koma á flötum skatti og borgaralaunum í landinu, en síðan Mattarelli hafnaði ríkisstjórninni hefur verið órói á fjármálamörkuðum í landinu og skuldabréfaálag hefur hækkað. Matsfyrirtæki lækkuðu fyrir helgi einkunn ríkisins sem skuldaði í lok marsmánuðar um 2.300 milljarða evra, eða sem nemur 285 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Leiðtogar Fimm stjörnu hreyfingarinnar sem var stærsti flokkurinn í kjölfar kosninganna í landinu 4. mars síðastliðinn og Fylkingarinnar sem var stærsti flokkurinn innan bandalags hægriflokka höfðu stefnt að stofnun ríkisstjórnar, en þeir hafa hætt við í kjölfar höfnunar forsetans.

Flokkarnir hafa báðir haft efasemdir um Evrópusamrunann og þá sérstaklega evruna en þegar fyrstu fréttir af stjórnarsáttmála þeirra komu fram var talað um að farið yrði fram á að samþykktum ESB yrði breytt þannig að ríki gæti sagt sig út úr evrunni.

Hafnað fyrir að vera gagnrýninn á evruna

Sú tillaga var þó ekki í endanlegri útgáfu sáttmála flokkanna þegar hún var birt, en val þeirra á fjármálaráðherra virðist hafa farið fyrir brjóstið á Evrópusambandinu og forsetanum. Sagði forsetinn ástæðu þess að hann hafnaði tillögu flokkanna um fjármálaráðherra, hins 81 árs gamla hagfræðings Paolo Savona vera að hann hefur verið gagnrýninn á evruna.

Flokkarnir komu sér saman um að Giuseppe Conte, þingmaður Fimm stjörnu hreyfingarinnar og lagaprófessor yrði forsætisráðherraefni ríkisstjórnarinnar. Conte hafnaði því að velja annan í stöðu fjármálaráðherra. Forseti Ítalíu hefur rétt til að hafna skipunum í ríkisstjórnina, en valdinu hefur sjaldan verið beitt, eða einungis þrisvar áður í nútímasögu Ítalíu.

Vill endurreisa lýðræðið á Ítalíu

Leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar Luigi Di Maio kallaði eftir því að forsetinn segði af sér, en til þess að hann verði að gera það, þá þarf einungis einfaldan meirihluta í þinginu.„Höfum það alveg á hreinu, að hver er tilgangurinn með því að kjósa ef ríkisstjórnir eru ákvarðaðar af matsfyrirtækjum og þrýstihópum á fjármálamarkaði,“ sagði Di Maio í tilefni þess að forsetinn vísaði til ástandsins á fjármálamarkaði sem ástæðu ákvörðunar sinnar.

Matteo Salvini leiðtogi Fylkingarinnar, áður Norðurfylkingarinnar, tók fyrst undir kröfu Di Maio en bakkað seinna og sagði ekki gáfulegt að taka ákvarðanir í reiðikasti. „Ef við fáum ekki samþykki frá Berlín, París eða Brussel, þá er ekki hægt að mynda ríkisstjórn á Ítalíu,“ sagði Salvini þó og kallaði það brjálæði. „Ég bið ítölsku þjóðina að vera með okkur í þessu, því ég vil endurreisa lýðræðið í þessu landi.“

Kannanir benda til þess að stuðningur við Fimm stjörnu hreyfinguna haldist í um 30% en Fylkingin sem fékk 17% atkvæða gæti bætt við sig töluverðu ef kosið yrði nú.

Fyrrum IMF starfsmaður myndi ríkisstjórn

Forsetinn boðaði í kjölfarið á sinn fund Carlo Cottarelli til að ræða myndun tæknikrataríkisstjórnar. Hann starfaði lengi fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þar sem hann fékk viðurnefnið Skærin fyrir að skera niður í útgjöldum og þjónustu hins opinbera.

Ólíklegt er þó að ríkisstjórn hans verði samþykkt í þinginu, bæði vegna þess að hinir ætluðu ríkisstjórnarflokkar tveir, sem og Forza Italia, flokkur Silvio Berlusconi fyrrum forsætisráðherra, hafa hafnað því að styðja slíka stjórn.

Það þýðir að hún mun einungis starfa tímabundið þangað til boðað verði til nýrra kosninga, sem margir líta á að geti orðið þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfsforræði Ítalíu og samstarfið við ESB. Leiðtogar Fimm stjörnu hreyfingarinnar og Fylkingarinnar íhuta að mynda bandalag fyrir kosningar um myndun ríkisstjórnar.

Formlegt bandalag gæti haft áhrif á skiptingu þingsæta vegna kosningakerfis landsins sem er blandað þar sem hluti þingmanna eru kosnir í einmenningskjördæmum en þau atkvæði sem ekki nýtast þar skipta þingsætum eftir listum.