Frjálslyndi markaðshyggjuflokkurinn FDP hefur dregið sig út úr fjögurra vikna stjórnarmyndunarviðræðum við Kristilega demókrata og Græningja í Þýskalandi. Viðræðurnar sem staðið hafa yfir í landinu í fjórar vikur, en kosið var í landinu 24. september síðastliðinn, hafa verið kallaðar Jamaíku stjórnin vegna þess að litir flokkanna eru þeir sömu og mynda fána karabíska eyríkisins.

Leiðtogi FDP, en einkennislitur þeirra er gulur, Christian Lindner sagði þegar stjórnarmyndunarviðræðunum var slitið að það væri enginn grunnur fyrir traust milli aðila viðræðnanna að því er BBC greinir frá.

„Í dag náðist enginn árangur heldur í raun afturför því dregnir voru í efa þær við sáttatillögur sem þegar hafði náðst saman um,“ sagði Lindner „Það er betra að stjórna ekki heldur en að stjórna illa. Verið þið sæl!“

Ekki er ljóst hvað taki við, en Angela Merkel, starfandi forsætisráðherra, og leiðtogi Kristilegra demókrata, hvers einkennislitur er svartur, mun fara á fund Walter Steinmeier, forseta landsins, en hann hefur vald til að boða til kosninga í flýti.

Ágreiningur um rétt hælisleitenda til að flytja fjölskyldumeðlimi til sín

Merkel sagðist sjá eftir því að upp úr viðræðunum hefði slitnað, en helstu ágreiningsefnin milli flokkana hafa snúist um skattastefnu, náttúruverndarmál og málefni hælisleitenda.

Þar af hefur heitasta deiluefnið verið hvort sýrlenskir flóttamenn ættu að fá tækifæri til að flytja ættingja sína inn í landið, en CDU flokkur Merkel hafa áhyggjur af uppgangi flokksins Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) sem barist hefur gegn því að landið sé of opið fyrir hælisleitendur og flóttamenn.

Næst stærsti flokkurinn á þinginu, sósíaldemókratar hafa þegar neitað þátttöku í ríkisstjórn eftir afhroð í kosningunum, en þeir voru í stjórnarsamstarfi yfir miðjuna með Kristilegum demókrötum.

Kosningarnar voru sögulegar fyrir það að Annar valkostur fyrir Þýskaland, sem þróast hefur úr því að vera flokkur andstæðinga evrunnar, í að berjast gegn auknum innflutningi fólks til Þýskalands á einu kjörtímabili náði inn á þing í fyrsta sinn.

Fyrir fjórum árum var flokkurinn nálægt 5% lágmarkinu til að komast inn, en þáverandi formaður flokksins komst hins vegar inn á Evrópuþingið. Síðan hefur flokkurinn tvisvar skipt um formann, og hafa þeir orðið sífellt öfgafyllri svo að endingu sagði fyrrverandi formaðurinn sig úr flokknum og stofnaði nýjan.

Til að mynda stjórn þar 355 þingsæti að lágmarki, en Græningjar, Kristilegir og Frjálslyndir demókratar hefðu samanlagt haft 393 þingsæti. Kristilegir og Sósíaldemókratar hefðu 399 þingsæti, Sósíaldemókratar, Græningjar og Vinstriflokkurinn hefðu hins vegar einungis samanlagt 302 þingsæti, en Kristilegir og Frjálslyndir demókratar gætu hins vegar myndað ríkisstjórn með Öðrum valkosti fyrir Þýskaland, með 420 þingsæti, en flestir flokkar hafa hafnað að vinna með þeim flokki.

Niðurstaða þýsku kosninganna skipti þingsætunum 709 sem hér segir:

  • Kristilegir demókratar, systurflokkarnir CDU og CSU, hlutu 246 sæti, töpuðu 65
  • Sósíaldemókratar, SPD, hlutu 153 og töpuðu 40
  • Vinstriflokkurinn, Linke, hlaut 69, bættu við sig 5
  • Græningjar, Grüne, hlutu 67, og bættu við sig 4
  • Frjálslyndir demókratar, FDP, komust aftur á þing eftir eitt kjörtímabil utan þings, með 80 þingsæti
  • Annar valkostur fyrir Þýskaland komst inn á þing með 94 þingsæti